Árið 1988 kom út fyrsta ritið fram til þess tíma sem kalla má ævisögu bandaríska rithöfundarins J.D. Salingers, bókin In Search of J.D. Salinger (Í leit að J.D. Salinger). Höfundurinn var fimmtugur Breti, Ian Hamilton, ljóðskáld og bókmenntamaður. Það sérkennilega við verk Hamiltons er að jafnframt því að rekja feril Salingers segir hann frá tilurð bókar sinnar, tilraunum sínum til að grafa upp heimildir, ræða við skólafélaga Salingers og vini, og síðast en ekki síst frá samskiptum sínum við skáldið. Í nýrri grein, „Allt þetta Davíð Kopperfíld-kjaftæði“ sem var að birtast á bókmenntavefnum Subbuskapur og sóðarit, fjalla ég um bók Hamiltons og þau illu örlög að geta ekki hætt að vera til, enda þótt maður sé dauður.