Northern Myths, Modern Identities: The Nationalization of Mythologies in Northern Europe 1800-2014 er titill á viðamikilli alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður við Háskólann í Groningen í Hollandi dagana 27.-29. nóvember næstkomandi. Þar verða fluttir yfir 20 fyrirlestrar um gildi goðsagna og goðsögulegs hugsunarháttar fyrir þjóðríkjaþróun nútímans. Norræn goðafræði kemur þar töluvert við sögu. Meðal heiðursfyrirlesara eru Tom Shippey og Joep Leerssen. Ég er í hópi fjögurra fræðimanna sem koma frá Íslandi til að taka þátt í ráðstefnunni í Groningen en hinir eru Daisy L. Neijmann, Sumarliði Ísleifsson og Gylfi Gunnlaugsson. Líkt og í erindi mínu hjá Félagi þjóðfræðinga fyrr í mánuðinum hyggst ég ræða um birtingarmyndir Þórs í bandarískum teiknimyndum á árum síðari heimsstyrjaldar.