The Trouble with Memory III (Vandinn við minnið III) er titill á ráðstefnu (þeirri þriðju í röðinni) sem írsk-íslenska rannsóknanetið í minnisfræðum mun standa fyrir í tengslum við Hugvísindaþing í Háskóla Íslands, 13.-14. mars næstkomandi. Á ráðstefnunni verða fluttir rúmlega 20 fyrirlestrar sem tengjast írskum og/eða íslenskum viðfangsefnum. Fyrirlestur minn á þinginu, „Saints of Poetry: More than just a metaphor?“ gerir merkilega tilvitnun í riti Carlyles, On Heroes, Hero–Worship, and the Heroic in History, að útgangspunkti sínum en markmið mitt er að rekja hvernig þjóðernisstefna og menningarminni hafa verið tengd hugmyndum um borgaraleg og ósýnileg trúarbrögð. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu sem er á dagskrá milli kl. 15.00 og 17.00 föstudaginn 13. mars.