„Ímyndarvandi þjóðarpúkans“ er titill á grein sem við Guðmundur Hálfdanarson birtum í nýju hefti Skírnis. Greinin snýst um bók Kristjáns Jóhanns Jónssonar, Grímur Thomsen. Þjóðernis, skáldskapur, þversagnir og vald, sem út kom á vegum Bókmennta- og listfræðastofnun Háskólans og Háskólaútgáfunni á liðnu ári. Í niðurlagi segir meðal annars: „greining Kristjáns Jóhanns Jónssonar á lífshlaupi Gríms Thomsen, viðhorfum hans, kveðskap og menningarpólitískum skrifum er mikilvægt framlag til greiningar á íslenskri menningarsögu nítjándu aldarinnar. Í fyrsta lagi opnar hún nýja sýn á Grím, sem hefur ekki notið þeirrar athygli sem hann á skilda. Hér hefur minningin um skáldið örugglega liðið fyrir náin tengsl þess við danska elítu, því að þótt það sé kannski fulllangt gengið að kalla Grím „þjóðarpúka“, eins og Kristján gerir á fleiri en einum stað … þá var frami í danska stjórnkerfinu mönnum tæplega til framdráttar í tilfinningaþrungnu andrúmslofti sjálfstæðisbaráttunnar. Í öðru lagi er ritgerðin áhugaverð tilraun, í anda nýsöguhyggju, til að lesa ljóð skálds og menningarpostula í samhengi við aðra texta sem hann skildi eftir sig. Það er þó um leið ljóst að hægt væri að ganga mun lengra í nýsögulegri túlkun á ljóðum skáldsins.“