„Who invented Þingvellir as a mnemonic place?“ er titill á fyrirlestri sem ég flyt á vinnustofunni Nature, Lancscape, Place: Memory Studies and the Nordic Middle Ages sem fram fer í Uppsala í Svíþjóð dagana 19. til 20. janúar 2017. Í fyrirlestrinum hyggst ég gefa yfirlit yfir fjörleg skrif fræðimanna um Þingvelli sem stað minninga og sögulegt minnismerki en einnig hrekja þá viðteknu skoðun að Jónas Hallgrímsson leggi grunn að nútímahugmyndum Íslendinga um staðinn með ljóðum á borði við „Ísland“ og „Fjallið Skjaldbreiður“. Í grein í Skírni árið 2009 setur Sveinbjörn Rafnsson reyndar fram athyglisverðar kenningar um að Finnur Magnússon og Baldvin Einarsson hafi haft sín áhrif á þessi ljóð Jónasar en ég hyggst benda á að skrif þeirra tveggja eru bergmál enn eldri skrifa um Þingvelli. Ráðstefnan í Svíþjóð er skipulögð af hópi fræðimanna sem hafa áhuga á að beita kenningum minnisfræða við rannsóknir á víkingatímanum og norrænum miðöldum. Hópurinn hefur áður staðið að ýmsum viðburðum og vinnur nú að útgáfu viðamikillar „handbókar“ á þessu sviði.