Í Smásögum heimsins birtast íslenskar þýðingar á snjöllum smásögum úr öllum heimsins hornum. Á liðnu ári kom út fyrsta bindið með smásögum frá Norður-Ameríku en nú er komið út annað bindið þar sem smásögur frá Rómönsku-Ameríku birtast. Meðal höfunda sem eiga þarna sögur eru Jorge Luis Borges, Juan Rulfo, Clarice Lispector, Julio Cortázar, Pedro Peix, Yanick Lahens og María Luisa Bombal. Í stórum hópi þýðenda eru Guðbergur Bergsson, Ásdís R. Magnúsdóttir, Friðrik Rafnsson, Erla Erlendsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Hermann og Jón Hallur Stefánssynir, María Gestsdóttir, Sigfús Bjartmarsson, Skúli Jónsson, Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir en tvö þeirra síðastnefndu eru með mér í ritstjórn þessa metnaðarfulla verkefnis. Áformað er að sögur frá Asíu og Eyjaálfu komi út að ári.