Alfræði rómantískrar þjóðernisstefnu í Evrópu

Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe er tveggja binda stórvirki sem Amsterdam University Press hefur nýlega gefið út undir ritstjórn hollenska bókmenntafræðingins Joeps Leerssen. Um er að ræða tæplega 1500 síðna alfræðirit í stóru broti þar sem fjallað er um mikilvægi menningarlegrar þjóðarvitundar í einstökum löndum í Evrópu og áhrif hennar á þjóðernisstefnu í álfunni. Liðlega 20 síðna kafli er helgaður Íslandi en meðal höfunda að þeim færslum sem þar birtast eru Haraldur Bernharðsson, Terry Gunnell, Simon Halink, Karl Aspelund, Þórir Óskarsson, Gauti Kristmannsson, Sveinn Yngvi Egilsson, Adolf Friðriksson, Sveinn Einarsson, Loftur Guttormsson og Sigurjón Baldur Hafsteinsson. Ég skrifa þarna þrjár færslur; um upphaf bóka- og skjalasafna hér á landi, ungmenna- og íþróttafélög, og hina þjóðlegu íþrótt glímuna.