Haustið 1945 frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur leikritið Uppstigningu eftir H.H. en þeir upphafstafir vísuðu til einnar aukapersónu verksins, Hæstvirts höfundar. Í lok sýningartímans kom á daginn að á bak við þetta dulnefni stóð Sigurður Nordal (1886-1974), prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum „„Þú talar eins og bók“. Pirandello, Brecht og Nordal“ sem ég flyt á fyrra Hugvísindaþingi föstudaginn 11. mars ætla ég að setja verk Nordals í samband við fagurfræði leikritahöfundanna Luigis Pirandello (1867-1936) og Bertold Brecht (1898-1956) og kenningar bandaríska bókmenntafræðingsins Brians Stonehill um meðvituð skáldverk (e. self-conscious fiction). Fyrirlesturinn hefst klukkan 13.35, í stofu 225 í aðalbyggingu Háskólans.