Í liðinni viku birti ég greinina „Hvar á blessuð vatnskerlingin heima?“ á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Í greininni taldi ég óráð af borgaryfirvöldum að flytja listaverkið Vatnsberann eftir Ásmund Sveinsson, ofan úr Öskjuhlíð niður í Austurstræti, eins og Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafði gert að tillögu sinni. Síðastliðinn fimmtudag samþykkti borgarráð að flytja listaverkið niður í miðbæ en í stað þess að staðsetja það í Austurstræti var ákveðið að setja það upp á horni Bankastrætis og Lækjargötu, svo að segja á þeim stað sem upphaflega var ætlaður undir þetta verk árið 1949. Það verður að segjast eins og er að sú staðsetning er heldur skárri en Austurstrætið, enda þótt óljóst sé hvort þessi síðbúni hreppaflutningur hefði verið listamanninum að skapi.