Aðkomumenn, þjóðarvitund og minningar er titill á málstofu sem við Þorsteinn Helgason, Sumarliði Ísleifsson og Kim Simonsen tökum þátt í á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 15. mars næstkomandi. Þorsteinn mun þar ræða um minningar Íslendinga um Tyrkjaránið, Sumarliði fjallar um fimm ferðalýsingar frá Íslandi frá því fyrir 1750 og Kim ræðir um áhrif erlendra ferðalýsinga á þróun færeyskrar þjóðarvitundar. Þess má geta að þeir Þorsteinn og Kim hafa nýlega lokið við glæsilegar doktorsrannsóknir sem fyrirlestrar þeirra byggja á og Sumarliði er að ljúka við doktorsritgerð sem tengist hans viðfangsefni á þinginu. Sjálfur mun ég taka til athugunar ferðabókina Norðan Vatnajökuls eftir danska listfræðinginn Paul Vad, sem kom út árið 1994, en þar segir af pílagrímsferð höfundar á slóðir Hrafnkels sögu. Málstofustjóri er Emily Lethbridge sem sjálf býr að einstakri reynslu sem pílagrímur á söguslóðum.