Sumarsagan í Víðsjá á Rás 1 þessar vikurnar er Atómstöð Halldórs Laxness. Af því tilefni hafa umsjónarmenn þáttarins átt nokkuð viðtöl við bókmenntafræðinga um afmarkaða þætti sögunnar. Á síðustu vikum hafa samkennarar mínir við Íslensku- og menningardeild, prófessorarnir Bergljót Kristjánsdóttir og Ármann Jakobsson, meðal annars rætt um pólitíkina í sögunni og um persónuleika organistans. Í þessari viku átti Magnús Örn Sigurðsson síðan viðtal við mig um þá umræðu um nútímalistir sem finna má í skáldsögunni. Ég benti meðal annars á að hugmyndir Uglu um myndlist minna nokkuð á gagnrýni sem Laxness skrifaði um sýningu á myndum úr safni Markúsar Ívarssonar árið 1944. Einnig vakti ég athygli a tónverki eftir Roberto Gerhard sem Ugla hlutar á í húsi organistans. Fróðlegt er að velta fyrir sér að hve miklu marki þessi umræða geymir lykil að fagurfræði Atómstöðvarinnar og meintum tengslum hennar við veruleikann en það væri ekki síður forvitnilegt að skoða hvernig umræðan um íslenskan módernisma tekur á sig mynd í skáldverkum af ýmsum toga sem út koma á árunum 1945-1948, þar á meðal Uppstigningu Sigurðar Nordals, Eftir örstuttan leik Elíasar Marar, Gresjum guðdómsins eftir Jóhann Pétursson, Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, og Atómstöð HKL.