„Biskupamóðir í Páfagarði“ er titill á afar áhugaverðri og yfirgripsmikilli M.A. ritgerð sem Sigríður Helga Þorsteinsdóttir var að ljúka við undir minni leiðsögn. Í inngangi er efninu lýst svo: „Ritgerðin fjallar um ólíkar birtingarmyndir Guðríðar Þorbjarnardóttur, einnar aðalsöguhetju Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu, sem oft eru nefndar Vínlandssögur. Viðfangsefnið er greint í ljósi endurritunarfræða, þýðingarfræða og með hliðsjón af rannsóknum á evrópskum þjóðardýrlingum. … Birtingarmyndir Guðríðar Þorbjarnardóttur í skáldskap og veruleika í 1000 ár gefa mikilvægar vísbendingar um samtímann hverju sinni en jafnframt kemur í ljós að Guðríður hefur bæði fyrr og síðar verið greind og túlkuð í ljósi kristinnar dýrlingahefðar.“ Hægt er að nálgast ritgerðina á Skemmunni, rétt eins og flest önnur lokaverkefni íslenska háskólasamfélagsins. Mig langar til að óska Sigríði Helgu til hamingju með þennan stóra áfanga.