Kristján Jóhann Jónsson varði doktorsritgerð sína um Grím Thomsen, Heimsborgari og þjóðskáld, í hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 21. september síðastliðinn. Við Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, vorum andmælendur og fluttum hvor sína ræðuna en inn í þær fléttuðust spurningar til Kristjáns Jóhanns og svör hans við þeim. Í inngangi andmæla minna sagði ég meðal annars: „Eins og merkja má af þessari lýsingu er um afar yfirgripsmikla rannsókn að ræða, þar sem ævi, skáldskapur og ýmis önnur skrif Gríms eru tekin til athugunar, en einnig skoðað með hvaða hætti viðtökur samtímamanna hans og síðari tíma manna hafa fallið ítrekað ofan í fáein sídýpkandi hjólför. Markmið ritgerðarinnar eru að koma umræðunni um Grím upp úr þessum hjólförum. … Í þessari afstöðu til viðfangsefnisins felast ein helstu nýmæli ritgerðarinnar; hún segir okkur margt um Grím Thomsen en um leið segir hún okkur margt um það hvernig við hneigjumst til að tala um Grím og raunar mörg önnur skáld nítjándu aldarinnar.“ Ég vil nota tækifærið og óska Kristjáni Jóhanni til hamingju með þennan merka áfanga.