„Þrautreyndur nýgræðingur: Fyrstu skrif Elíasar Marar“ er titill á grein sem ég birti í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Þar reyni ég að leiðrétta þá vanhugsuðu fullyrðingu, sem ég lét frá mér í grein í Ritinu fyrir áratug, að Elías hafi verið nýgræðingur á ritvellinum þegar hann birti fyrstu skáldsögu sína árið 1946. Í nýju greininni rek ég í grófum dráttum feril Elíasar á stríðsárunum og vek athygli á nokkrum þeim þáttum sem kunna að hafa mótað hann sem höfundum. Niðurstaðan er sú að mörg þeirra viðfangsefna sem hann glímdi við í síðari verkum sínum – svo sem áfengisnautn, Ástandið, kynhneigð, kynlíf og móðurmissir – dúkka upp í elstu smásögum hans og ljóðum. Þessi nýja grein er óbeint framhald af grein sem ég birti á vefritinu Hugrás árið 2012 um vaxandi gengi Elíasar í bókmenntaumræðunni.