Á liðnu ári voru Íslendingasögur og -þættir gefin út í nýjum þýðingum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í tilefni af þessari merku útgáfu verður fimmtudaginn 19. mars dagskrá í Norræna húsinu á vegum Café Lingua þar sem þrír þýðendur ræða það mikla verkefni að þýða Íslendingasögurnar á norræn mál. Að auki hyggst ég ræða um áhrif Íslendingasagna á eitt þekktasta skáld Norðurlanda, Henrik Ibsen. Snemma árs 1857 fullyrti Ibsen í fyrirlestri, eins og hann hafði raunar gert áður, að Íslendingasögurnar væru ekki ýkja heppilegur efniviður fyrir nútímaleikritun. Samt liðu bara nokkrar vikur eða mánuðir þar til hann hófst handa við að skrifa Hærmendene på Helgeland. Fullskrifað kom verkið út sem viðauki við Illustreret Nyhedsblad vorið 1858 og var síðan frumsýnt í Kristiania norske Theater um haustið undir leikstjórn höfundarins. Ég mun draga fram með dæmum hvernig Ibsen nýtir sér hinar íslensku heimildir og ræða stuttlega hvernig verkið vísa fram á veginn til þekktari leikrita skáldsins. Dagskráin í Norræna húsinu hefst kl. 17.00.