Áhugahópur um rannsóknir á bankahruninu 2008, orsökum þess og eftirstöðvum, stendur þriðjudaginn 6. október fyrir opinni málstofu í stofu 301 í Árnagarði, Háskóla Íslands. Þar munu fjórir nemendur við skólann kynna rannsóknir sínar á þessu viðamikla viðfangsefni. Fyrirlesarar eru Þórhildur Ólafsdóttir, sem leitar skýringa á því að heilsa virðist að mörgu leyti batna í efnahagskreppum, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, sem ræðir um búsáhaldabyltinguna, kosningabaráttu Besta flokksins og upplestur á Rannsóknarskýrslu Alþingis í Borgarleikhúsinu sem dæmi um andóf í opinberu rými, Markús Þ. Þórhallsson, sem fjallar um baráttu InDefence-hópsins gegn Icesave-samningunum, og Guðrún Baldvinsdóttir sem greinir skáldsögurnar Bankster eftir Guðmund Óskarsson og Gæsku eftir Eirík Örn Norðdahl út frá þeirri hugmynd að bankahrunið hafi framkallað ákveðið tráma í sjálfsmynd þjóðarinnar. Þá verður opnaður nýr banki, gagnabankinn Hrunið, þið munið, sem nemendur af Hugvísindasviði og Félagsvísindasviði hafa verið að leggja inn á undanfarna mánuði. Gagnabankanum er ætlað að geyma upplýsingar um kortlagningu fræðimanna, listamanna og annarra á íslenskri samtímasögu. Við Guðni Th. Jóhannesson og Markús Þórhallsson höfum ritstýrt efninu á þessum vef en við bindum vonir við að fleiri kennarar og nemendur við skólans leggi þessu verkefni lið. Málstofan hefst kl. 16.30 og er öllum opin.