Síðastliðinn föstudag stóð námsgreinin Íslenska sem annað mál fyrir ráðstefnunni Íslenska sem annað líf þar sem átta fyrrverandi nemendur okkar sögðu frá reynslu sinni af náminu og þeim tækifærum og ögrunum sem hafa mætt þeim í íslensku samfélagi að námi loknu. Margrét Jónsdóttir, prófessor við námsgreinina, átti hugmyndina að þessari ráðstefnu og stóð að undirbúningi hennar ásamt okkur Sigríði Þorvaldsdóttur. Aðsókn var góð en auk þess hafa fjölmiðlar sýnt henni töluverðan áhuga. Á fimmtudaginn í liðinni viku var viðtal við Ingrid Kuhlman í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í tengslum við ráðstefnuna og í morgun voru Aleksandra M. Cieślińska og Róland R. Assier í viðtali á Rás 2. Loks má nefna að í Samfélaginu í nærmynd fyrr í dag var viðtal við Joönnu Marcinkowsku, annan fyrrum nemanda okkar, en hún hefur nýlega hafið störf sem pólskumælandi ráðgjafi innflytjenda hjá Reykjavíkurborg. Í viðtalinu ræddi hún meðal annars um reynslu sína af því að læra íslensku við Háskóla Íslands og lét vel af því. Það er ómetanlegt fyrir námsgreinina að eiga svo góða málsvara í hópi brautskráðra nemenda. Ps. Í Fréttablaðinu birtist 22. febrúar viðtal við Cynthiu Trililani um erindið sem hún flutti á ráðstefnunni Íslenska sem annað líf en þar fjallaði hún um staðalímyndir asískra kvenna á Íslandi.