Bókmenntir og lögfræði

Ekki er daglegt brauð að nýútkomnar íslenskar skáldsögur og ævisögur komist í fréttir eða veki víðtækar umræður á síðum dagblaða og í netheim-um. Eftirminnileg dæmi um þetta frá síðari árum eru verkin Halldór 1902-1932. Ævisaga Halldórs Kiljans Laxness (2003) eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Konan við 1000°. Herbjörg María Björnsson segir frá (2011) eftir Hallgrím Helgason og Útlaginn (2015) sem Jón Gnarr skrifaði í samstarfi við Hrefnu Lind Heimisdóttur. Að miklu leyti snerust deilurnar um bók Hannesar um meint brot á lögum um höfundarétt á meðan deilurnar um hinar bækurnar snerust um meint brot á lögum um friðhelgi einkalífs og ærumeiðingar. Dómsmál var höfðað vegna bókar Hannesar sem endaði með því að hann var dæmdur til að greiða Auði Laxness, ekkju skáldsins, 1,5 milljónir fyrir brot á höfundarétti og 1,6 milljónir í málskostnað. Hins vegar var hvorki Hallgrími né Jóni stefnt vegna skrifa sinna enda í báðum tilvikum óljóst hverjir aðrir ættu þar beina aðild að málum.

Þessi þrjú verk eru til marks um að heimar bókmennta og skáldskapar geta skarast margvíslega við lög og rétt. Slíkt eru ekki ný tíðindi fyrir íslenska lesendur sem hafa í aldaraðir haldið upp á miðaldatexta á borð við Brennu-Njáls sögu, Ljósvetninga sögu og Hrafnkels sögu þar sem laga deilur og málaferli eru ein meginuppistaðan og lögspekingar eru söguhetjur. Vangaveltur um tengsl þessara og fleiri sagna við okkar elstu lögbækur, svo sem Grágás og Jónsbók, urðu snemma gildur þáttur í alþjóðlegum forn-sagnarannsóknum, ekki síst meðal þýskra fræðimanna á nítjándu öld. Á síðustu áratugum hefur þessi rannsóknarhefð gengið í endurnýjun lífdaga, meðal annars fyrir tilstilli bandaríska bókmenntafræðingsins Theodores M. Andersson og landa hans, lögfræðingsins Williams Ian Miller.

Jafnframt hefur orðið til athyglisverður flokkur sögulegra skáldsagna þar sem efniviðurinn eru málsskjöl um íslensk sakamál frá fyrri tíð. Þekktasta verkið af þessu tagi er líklega Svartfugl. Skáldsaga um Sjöundármálin (1938) eftir Gunnar Gunnarsson en hún kom upphaflega út á dönsku árið 1929. Af öðrum slíkum sakamálasögum má nefna Íslandsklukkuna (1943-1946) eftir Halldór Kiljan Laxness, Yfirvaldið. Skáldsaga eftir bestu heimildum og skilríkjum (1973) eftir Þorgeir Þorgeirsson, Dauðamenn. Söguleg skáldsaga (1982) eftir Njörð P. Njarðvík og Grámosinn glóir (1986) eftir Thor Vilhjálmsson. Nýlegt dæmi af þessu tagi í íslenskri bókmenntaflóru er Náðarstund (2014) eftir áströlsku skáldkonuna Hannah Kent í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Sagan kom upphaflega út á ensku árið 2013 undir titlinum Burial Rites og vakti athygli víða um heim en viðfangsefnið er að hluta til það sama og í sögu Þorgeirs, þótt efnistökin séu ólík.

Að auki hafa ótal lögfræðingar, dómarar og sakborningar skotið upp kollinum í fjöldamörgum íslenskum skáldverkum, ekki síst í þeirri bylgju glæpasagna sem hafa komið út hér á landi síðustu tvo áratugi. Í sumum þessara verka eru glæpir og refsingar beinlínis í brennidepli. Hér er um að ræða hefð sem nær að minnsta kosti aftur til fyrstu áratuga tuttug-ustu aldar. Má í því sambandi minna á ýmis leikrit Guðmundar Kamban, ekki síst Marmara (1918) þar sem meginviðfangsefnið er dauðarefsingar. Af nýlegri verkum má nefna skáldsögurnar Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón (1989) eftir Vigdísi Grímsdóttur, Kötu (2014) eftir Steinar Braga og Gott fólk (2015) eftir Val Grettisson sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um ofbeldi karla í garð kvenna og tilraunir einstaklinga til að taka lögin í eigin hendur. Á seinni árum hefur opinber meðferð margvíslegra mála þar sem kynferðisleg áreitni, misnotkun og nauðganir koma við sögu sætt harðri gagnrýni og hefur athyglin beinst meðal annars að lagarammanum og þætti lögreglu og dómstóla. Verk skálda og rithöfunda eru veigamikið innlegg inn í þessa umræðu sem í eðli sínu snýst um grundvallaratriði: lög og rétt, glæp og refsingu.

Erlendis hafa þverfaglegar rannsóknir á sviði laga og bókmennta verið blómlegar á undanförnum áratugum, ekki síst í Bandaríkjunum, en rann-sóknarhefðin þar er gjarnan rakin til seinustu áratuga nítjándu aldar. Árið 1882 sendi lögfræðingurinn Irving Browne (1835−1899) frá sér mikið rit, Law and Lawyers in Literature (Lög og lögfræðingar í bókmenntum) sem hefur að geyma fjölda sýnishorna úr heimsbókmenntunum (m.a. úr leikritum, ljóðum, skáldsögum og ritgerðum) þar sem lög og lögfræðingar koma við sögu. Browne ræðir um hvert dæmi en bók hans er þó nær því að vera sýnis bók en fræðirit á þessu sviði. Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar mótaðist síðan meðal bandarískra lögfræðikennara hreyfing í kringum lög og bókmenntir (e. the law and literature movement) sem hafði framan af þann tilgang að bæta menntun lögfræðinema. Er hreyfingin gjarnan rakin til bókalista sem John H. Wigmore, rektor við Northwestern University Pritzker School of Law, þróaði í nokkrum áföngum yfir skáldverk þar sem lög, lögfræðingar og réttarhöld eru meginviðfangsefnið. Wigmore taldi að lestur slíkra verka víkkaði sjóndeildarhring lögfræðinga og dómara og gerði þá hæfari til að sinna starfsskyldum sínum. Áður en yfir lauk taldi listi Wigmores 100 titla en meðal þeirra höfunda sem hann hélt á lofti voru James Fenimore Cooper, Charles Dickens, George Eliot, Robert Lewis Stevenson, Honoré de Balzac, Alexandre Dumas og Lev Tolstoj.

Ýmsir hafa orðið til þess að lengja og endurskoða þennan lista á síðari árum en slíkt starf, sem og fjölbreytt umfjöllun um lögfræðilegar hliðar tiltekinna skáldverka, hefur smám saman mótað einhvers konar hefðarveldi (e. canon) á þessu sviði. Því tilheyra meðal annars leikritið The Merchant of Venice (Kaupmaðurinn í Feneyjum) eftir William Shakespeare og skáldsögurnar Michael Kohlhaas (Mikkjáll frá Kolbeinsbrú) eftir Heinrich von Kleist, Mansfield Park (Mansfield-garður) eftir Jane Austen, Billy Budd, Sailor (Sjómaðurinn Billy Budd) eftir Herman Melville, Der Process (Réttarhöldin) eftir Franz Kafka, L’Étranger (Útlendingurinn) eftir Albert Camus og To Kill a Mockingbird (Að drepa hermikráku) eftir Harper Lee.6

Um miðjan þriðja áratuginn færði bandaríski dómarinn Benjamin n. Cardozo annars konar rök fyrir því að lögfræðingar kynntu sér skáldskap og bókmenntir. Þar sem starf stéttarinnar snerist að verulegu leyti um skrif (að semja sóknar- og varnarræður, lög og dómsorð) væri yfirgripsmikil þekking á stíl og stílbrögðum gagnleg hverjum þeim sem vildi ná árangri í faginu. Skrif Cardozos og fjölmargra sporgöngumanna hans hafa eflt almenna vitund um að lögfræðilegir textar hafi ýmis bókmenntaleg ein-kenni en það er efni sem James Boyd White tók til ítarlegrar umræðu í bók sinni The Legal Imagination (Hið lögfræðilega ímyndunarafl) árið 1973. Hún er talin marka tímamót í akademískum rannsóknum á þessu sviði. Á næstu tveimur áratugum urðu lög og bókmenntir að viðurkenndu þverfaglegu rannsóknarsviði í Bandaríkjunum með þátttöku áhrifaríkra lögfræðinga, heimspekinga og bókmenntafræðinga. Í þeim hópi eru Richard Weisberg, Richard A. Posner, Martha nussbaum, Ronald Dworkin, Stanley Fish og Peter Brooks. Ekki leið á löngu þar til bandaríska fræðiumræðan fór að hafa áhrif víðar, meðal annars í Evrópu. Staðbundnar lögfræðilegar hefðir og bókmenntir hafa eðlilega mótað rannsóknir í ólíkum löndum en ýmis dæmi eru um hve erfitt getur reynst að skapa raunverulegan umræðu-grundvöll milli lögfræðinga og fræðimanna af sviði hugvísinda.

Hér á landi hafa ýmsir fræðimenn sinnt rannsóknum sem unnt er tengja sviði laga og bókmennta. Sterkust hefur hefðin verið í rannsóknum á lagalegum grundvelli íslenskra miðaldabókmennta en þegar hugað er að rannsóknum á íslenskum skáldverkum frá síðari öldum vekur sérstaka athygli samstarf bókmenntafræðingsins Sveins Skorra Höskuldssonar og lögfræðingsins Þórs Vilhjálmssonar. Árið 1969 kenndu þeir saman nám-skeið sem ætlað var nemendum í þeim ólíku deildum Háskóla Íslands sem þeir kenndu við; Þór var prófessor við lagadeild og Sveinn Skorri nýráð-inn lektor í íslenskum bókmenntum við heimspekideild. Í grein sinni, „Játningarnar í Sjöundármálinu“ sem birtist árið 2006, segir Þór svo frá:

„Texti þingbókar Barðastrandarsýslu frá 1802 um Sjöundármálið var skrifaður upp af laganemum og síðan dreift til þátttakenda. Þessi texti var borinn saman við það, sem um réttarhöldin segir í skáld-sögu Gunnars Gunnarssonar, Svartfugli, og rætt var um þýðingu þess í bókinni. […] Afbrotin sjálf voru stórglæpir en í huga greinarhöfundar hefur annað úr þessari morðsögu verið áleitið alla tíð síðan. Eru það sinnaskipti morðingjanna í réttarhöldunum og játningar þeirra.“

Grein Þórs var síðbúinn ávöxtur námskeiðsins en það má einnig ætla að efnismikill eftirmáli Sveins Skorra við útgáfu hans af sögu Gunnars frá 1978, þar sem dómsmálið frá 1802 kemur nokkuð til tals, hafi einnig tekið mið af samstarfi þeirra Þórs.

Hluti af þeim íslensku og erlendu bókmenntaverkum sem hér hafa verið nefnd voru viðfangsefni nemenda í námskeiðinu Bókmenntir og lög sem ég kenndi á meistarastigi í íslensku við Háskóla Íslands vorið 2016. Meðal gestakennara í námskeiðinu voru Helga Kress, prófess-or emeritus í almennri bókmenntafræði, Ástráður Eysteinsson, prófessor í sömu námsgrein, Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. Einnig heimsóttu nemendur Hæstarétt og fræddust um starfsemi hans. Í framhaldi skipulögðu Guðrún Baldvinsdóttir, Sólveig Ásta Sigurðardóttir og Einar Kári Jóhannsson málstofu um lög og bókmenntir á ráðstefnunni NonFictionNowsem fram fór í Reykjavík í júnímánuði 2017. Meginmarkmið námskeiðsins og málstofunnar var að kanna og vekja áhuga á margháttuðum tengslum lögfræðinnar við bókmenntafræði, sagnfræði og heimspeki. Starfið bar svo frekari ávöxt í þemahefti Ritsins 2018 um lög og bókemnntir en þar birtust fjórar frumsamdar og tvær þýddar greinar þar sem þessi svið fléttast saman. Textinn sem hér birtist er hluti af inngangsritgerð heftisins.

Meðal þýddu greinanna í þemaheftinu er „Lög og bókmenntir í dönsku samhengi“ eftir Karen-Margrethe Simonsen og Ditlev Tamm. Í upphafi greinarinnar  fjalla þau  stuttlega um þróun rannsóknarsviðs laga og bókmennta í Danmörku en meg­inhluti textans er bókmenntafræðileg og lögfræðileg túlkun á hinni stuttu skáldsögu Præsten i Vejlbye eftir Steen Steensen Blicher. Sagan kom út á dönsku árið 1829 og í íslenskri þýðingu Gunnars Gunnarssonar laust eftir miðja síð­ustu öld undir titilinum Vaðlaklerkur. Ýmislegt bendir til þess að Gunnar hafi verið undir áhrifum frá Blicher þegar hann skrifaði Svartfugl. Hún kom upphaflega út á dönsk nákvæmlega öld síðar en Præsten i Vejlbye. Umfjöllun dönsku fræðimannanna um verk Blichers er ágætt dæmi um rannsóknir á sviði laga og bókmennta en hún kann einnig að varpa nýju ljósi á ýmsar réttarfarslegar hliðar Svartfugls. Í því sambandi má benda á að neðanmáls vekja Simonsen og Tamm athygli á ótvíræðum líkind­um með sögu Blichers og skáldsögunni Michael Kohlhaas eftir Heinrich von Kleist. Svo merkilega vill til að síðarnefnda verkið kom einnig út á íslensku í „endursögn“ Gunnars Gunnarssonar um miðja síðustu öld.

Haustið 2021 hófum við Hafsteinn Þór Hauksson síðan samstarf við starfsfólk innan Héraðsdóm Reykjavíkur um rannsóknir á sviði bókmennta og lögfræði. Er stefnt að því að verkefnið beri ávöxt á Hugvísindaþingi og í Þjóðarspegli vor og haust 2022. Einnig erum við í sambandi við  Lögfræðingafélag Íslands sem hyggst efna til hópferðar á söguslóðir Svartfugls í maí 2022. Í tilefni af þessu hyggjumst við safna saman á undirsíðum þessarar síðu saman heimildum sem nýst geta áhugasömum lesendum Svartfugls og fleiri verka á sviði bókmennta og lögfræði.