Fyrir réttum mánuði síðan var afhjúpaður bókmenntaskjöldur við Aðalstræti 6-8 í Reykjavík þar sem sódabarinn Adlon, öðru nafni Langibar, var til húsa um miðja síðustu öld. Skjöldurinn vísar til þess að staðurinn er nefndur í skáldsögunni Vögguvísu eftir Elías Mar. Í tilefni af því og Degi íslenskrar tungu birti ég í dag stutta grein á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs, þar sem rakið er hvernig Elías hefur „komist á kortið“ í íslenskri bókmenntaumræðu. Sagan af þeirri þróun gefur vísbendingu um það hvernig einstakir höfundar og verk geta orðið hluti af svonefndu hefðarveldi (e. canon) íslenskra bókmennta og hve fjölbreyttir farvegir slíkrar helgifestu (e. canonization) eru.