Hátíð þar sem japanskar myndasögur og tengsl þeirra við íslenskar fornbókmenntir eru könnuð verður haldin í Reykjavík dagana 16.-18. ágúst. Hátíðin hefst með málþingi um manga og miðaldabókmenntir í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur fimmtudaginn 16. ágúst kl. 13-16. Þar flytja erindi fjórir gestir frá Japan og tveir Íslendingar. Dagskráin heldur síðan áfram í Norræna húsinu kl. 20-22 en þar munu myndasagnahöfundarnir Henning Kure frá Danmörku og Makoto Yukimura frá Japan segja frá verkum sínum: Goðheimum og Vínlands sögu. Hátíðinni lýkur síðan með manga-maraþoni í Borgarbóksafninu við Tryggvagötu frá kl. 13-18 laugardaginn 18. ágúst en það er hluti af framlagi safnins til Menningarnætur í Reykjavík. Að hátíðinni standa námsgrein í japönsku við Háskóla Íslands, Norræna húsið, Borgarbókasafnið og Fyrirmynd: félag teiknara og myndhöfunda en ég hef komið að undirbúningi þessa verkefnis ásamt Bjarna Hinrikssyni, Kristínu Ingvarsdóttur, Gunnellu Þorgeirsdóttur og fleiri aðilum.