Erik Skyum-Nielsen og Catherine Eyjólfsson hafa aukið orðstír íslenskra bókmennta í Frakklandi og Danmörku á liðnum árum og áratugum með þýðingum sínum. Þau tóku við nýrri heiðursviðurkenningu, ORÐSTÍR; sem ætluð er þýðendum íslenskra bókmennta, á Bessastöðum fimmtudaginn 10. september og tóku svo þátt í pallborðsumræðum ásamt Bergsveini Birgissyni og Auðu Övu Ólafsdóttur í Norræna húsinu daginn eftir. Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB), Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bandalag þýðenda og túlka, Embætti forseta Íslands og Íslandsstofa og var ég fulltrúi MÍB í úthlutunarnefndinni þetta árið. Íslenskar bókmenntir standa í stórri þakkarskuld við fólk eins og þau Erik og Catherine.