„Loksins: Fyrsta íslenska grafíska skáldsagan“ er titill á stuttri ritfregn sem ég hef birt á Hugrás um grafísku skáldsöguna Skugginn af sjálfum mér eftir Bjarna Hinriksson. Líkt og titillinn gefur til kynna er um að ræða sjálfsævisögulegt verk og þó ekki, eins og Bjarni útskýrir vel í nýlegu útvarpsviðtali. Aðalpersónur sögunnar eru fráskilinn íslenskur teiknimyndasagnahöfundur, Kolbeinn Hálfdánarson, og sonur hans, Sindri. Lesandinn slæst í för með þeim feðgum í sólarlandaferð til Kanaríeyja og er myndrænn þáttur verksins að hluta til byggður á ljósmyndum frá ferð Bjarna og sonar hans á þær sömu slóðir. Um er að ræða afar áhugavert verk sem markar gleðileg tímamót í íslenskri teiknimyndasagnagerð.