Sunnudaginn 29. nóvember spjallaði ég við gesti Listasafns Íslands um mannamyndir sem eru á sýningunni Nína Tryggvadóttir -Ljóðvarp. Ég lagði höfuðáherslu á einstaklinga sem sátu við gestaborð Erlendar í Unuhúsi á fjórða og fimmta áratugnum, en þar söfnuðust helstu menningarforkólfar síðustu aldar saman og ræddu um listir, heimspeki, bókmenntir og stöðu heimsmálanna. Meðal gesta í Unuhúsi voru Halldór Laxness, Þorvaldur Skúlason, Ragnar í Smára, Steinn Steinarr og Sigurður Nordal en myndir af þeim öllum, að ógleymdum Erlendi, er að finna á sýningunni.