Stytturnar í miðbæ Reykjavíkur eru viðfangsefni mitt í ríflega hálftíma löngum veffyrirlestri sem aðgengilegur er á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Þar er rakið hvernig líkneski af nafngreindum einstaklingum röðuðust upp í höfuðstaðnum á árabilinu 1875 til 1975 en megináhersla er lögð á þær breytingar sem voru gerðar á skipulagi þeirra árið 1931. Fyrirlesturinn var upphaflega fluttur á málþingi um framtíð Jóns Sigurðssonar sem Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stóð fyrir í september á liðnu ári.