„Dómsdagsmynd Gunnars Gunnarssonar,“ er titill greinar sem ég birti í nýútkomnu hausthefti Andvara 2010 en í henni er fjallað um trúarleg og persónuleg minni í skáldsögunni Vikivaka. Greinin er eins konar viðauki við grein sem ég birti Skírni vorið 2008 um Vikivaka sem sögusögn (e. metafiction) en að þessu sinni beinist athyglin að því hvernig höfundur vinnur með tvö þekkt bíblíutákn, lúðrana sem boða komu dómsdags og Jakobsstigann sem liggur frá jörðu himins. Sérstakri athygli er beint að vestrænum og austrænum dómsdagsmyndum en í niðurlagi er drepið á tengsl skáldsögunnar við ævi Gunnars sjálfs.