Í nýútkominni grein í vorhefti Skírnis 2011, „“Þú talar eins og bók, drengur“: Tilraun um meðvitaðan skáldskap“, fjalla ég um leikritið Uppstigningu eftir Sigurð Nordal en það var fyrst sett á svið í Iðnó haustið 1945. Í niðurlagi greinarinnar segir meðal annars:
„Árni Ibsen fullyrðir í fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu að þótt Uppstigning sé ekki gallalaust leikrit – honum þykir verkið fulllangt enda sé hugmyndaheimur þess flókinn – marki höfundur þess „upphaf samtíma okkar“. Hægt er að taka undir þau orð með því að benda á að mörg þeirra einkenna meðvitaðra skáldverka sem hér hafa verið til umræðu hafa gjarnan verið kennd við móderníska eða jafnvel póstmóderníska fagurfræði. Í þessu sambandi má vísa til umfjöllunar Ástráðs Eysteinssonar um samband þessara tveggja hugtaka í greininni „Hvað er póstmódernismi?“ Hann ræðir þar þá hugmynd bandaríska rithöfundarins Johns Barth að „póstmódernistar „samhæfi“ raunsæi og módernisma. Þeir dragi lærdóm af hvorumtveggju en hefji sig um leið upp yfir þær andstæður sem ríkt hafi á milli þessara bókmenntastrauma.“ Ástráður hefur efasemdir um slíkar hugmyndir, honum þykir sem þær beri „of mikinn keim af einingu og lausn“, eins og vel sjáist í riti Lindu Hutcheon Fagurfræði póstmódernismans (A Poetics of Postmodernism, 1988):
„Að hennar mati felst póstmódernismi í því að innleiða sögulegar hefðir á svið verksins en grafa þar jafnóðum undan þeim; sýna hvernig þær virki sem skýring á veruleikanum en sýna um leið að þær standist ekki. Póstmódernisminn tekur hverskonar mótsagnir í þjónustu sína og leikur sér að þeim; hann er alltaf bæði og. Módernismi og realismi eru þar ljúfir leikbræður og hafa gengið upp í einn samnefnara.“
Í framhaldi veltir Ástráður fyrir sér að hve miklu leyti sé í raun um að ræða póstmódernískan leshátt sem hægt er að beita á ólík verk frá ólíkum tímum bókmenntasögunnar sem innlimi með einhverjum hætti andstæð fagurfræðileg viðmið eða brúi bilið milli hámenningar og lágmenningar. Í síðarnefnda tilvikinu þurfi „samhæfðu“ verkin reyndar að skilja sig frá klisjunum með innbyggðri „sjálfsvitund sem ber lesanda þau boð að verið sé að stæla hefðbundin form og honum gefist kostur á að taka þátt í þeim leik. Oft leiðir þetta til þess að verkið tekur eigin merkingargrundvöll til athugunar, viðurkenni jafnvel opinskátt að það sé skáldskapur.“ Nordal leiðir vissulega saman hefðir raunsæisins og framúrstefnu í leikriti sínu, leikur sér að þeim og grefur undan þeim jafnóðum en af viðbrögðum sumra gagnrýnenda að dæma virðist eitthvað vanta upp samhæfinguna. Ólíkar uppfærslur verksins virðast vega salt á milli þess að vera bæði og eða hvorki né.“