Næstkomandi föstudag stendur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir málþinginu „Yfir saltan mar“ sem helgað er skáldskap argentínska skáldsins Jorge Luis Borges. Fyrir hlé munum við Hólmfríður Garðarsdóttir, Sigríður Á. Eiríksdóttir og Jón Hallur Stefánsson halda stutt erindi á íslensku um afmarkaða þætti í höfundarverki Borgesar en eftir hlé flytur Daniel Balderston, prófessor og framkvæmdastjóri Borgesar-setursins (Borges-Center) við Háskólann í Pittsburg lengri fyrirlestur á ensku sem ber yfirskriftina: „Hvernig skrifaði Borges?“. Erindi mitt á þinginu ber titilinn „Villtur í völundarhúsi Borgesar“ en í því beini ég athygli að þeim tveimur smásögum skáldsins sem ég hef hvað mest dálæti á, „Garður gangstíga sem greinast“ og „Dauðinn og áttavitinn“. Þingið fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og stendur frá kl. 14.00-17.00.